Vel heppnuð SKUP ráðstefna

620 gestir og fyrirlesarar sóttu árlega blaðamannaráðstefnu SKUP í Tønsberg í Noregi um liðna helgi. Undirrituð lagði land undir fót auk Helgu Arnardóttur og Lóu Pind Aldísardóttur, fréttakonum á Stöð 2. Kristinn Hrafnsson, formaður stjórnar Miðstöðvar rannsóknarblaðamennsku, bættist  í  hópinn í Tønsberg en hann tók þátt í pallborðsumræðum um uppljóstrara, möguleika þeirra á að koma efni til almennings og aukið mikilvægi þeirra á síðari tímum. Ráðstefnan hófst síðdegis á föstudeginum og stóð fram á sunnudags eftirmiðdegi. Fjölmargir áhugaverðir fyrirlestrar voru á ráðstefnunni og var úr vöndu að velja.  Meðal fyrirlestra sem undirrituð sótti var fyrirlestur tveggja ungra blaðamanna, Meri Jordanovska og Saska Cvetkovska frá Makedóníu  þar sem þær fjölluðu um störf sín – og uppsagnir frá fyrstu einkareknu sjónvarpsstöðinni í Makedóníu, A1. Þær sögðu mjög vegið að frelsi fjölmiðla í landinu og að blaðamönnum sem sinna rannsóknarblaðamennsku. Þær eiga það meira að segja á hættu að vera nafngreindar og kallaðar svikarar af þingmönnum á þingi Makedóníu. Það getur varla verið gott til þess að hugsa að eiga slíkt fyrir höfði sér í landi þar sem spilling er útbreidd og mafían hefur mikil ítök.

Smári McCarthy (Immi.is) og Stephan Marsiske (Open Standards Alliance, Ungverjalandi) stóðu fyrir vinnusmiðju um tölvuöryggi og hvernig blaðamenn geta falið spor sín á netinu,  átt örugg samskipti við heimildarmenn og flutt gögn á netinu með öruggum leiðum. Skemmst er frá því að segja að fyrirlestur þeirra Smára og Stephans var mjög upplýsandi og gagnlegur. Skilaboð þeirra voru í raun sú að maður á alls ekki að nota Internet Explorer, Facebook og snjallsíma vegna þess hversu auðvelt er að nálgast upplýsingar þaðan. Facebook vill vita hvað notendur sínir eru að sýsla öllum stundum. Það kom berlega í ljós þegar þátttakendur í vinnusmiðjunni fóru inn á Facebook reikninga sína frá öruggum – og órekjanlegum- vafra, TOR vafranum. Þá fengu þeir tilkynningu frá Facebook um að einhver hefði reynt að fara inn á reikning þeirra í öðrum löndum. Þetta er víst hræðsluaðferð Facebook til að notandinn skoði reikning sinn frá lesanlegum vafra í staðin fyrir þann örugga. Á TOR vafranum missir Facebook yfirsýn yfir það sem notandinn er að gera og fær ekki aðgang að upplýsingum um hann. Þá var blaðamönnum kennt að dulkóða tölvupósta og netspjall en það er þó þeim skilyrðum háð að bæði sendandi og móttakandi séu með rétt dulkóðunarforrit í tölvum sínum.

Einn þekktastri stríðsfréttaljósmyndari Noregs, Harald Henden,  hélt mjög áhugaverðan fyrirlestur um störf sín en ferill hans spannar rúm 25 ár. Harald hefur myndað í fjölmörgum löndum og upplifað aðstæður sem fæstir blaðamenn og ljósmyndarar komast í tæri við á ferli sínum. Vinnuaðstæður eru fjarri því að vera alltaf öruggar eins og Harald hefur margsinnis kynnst  við störf sín á Haítí, Afganistan, Írak og fleiri löndum. Hann fjallaði m.a. um mikilvægi þess að fara vel undirbúinn á vettvang og hvernig menn ættu að bera sig að við störf sín við hættulegar og óþekktar aðstæður.

Nokkrir fyrirlestranna eru aðgengilegir á heimasíðu SKUP á norsku og ensku. fyrirlestur Meri og Saska sem má finna hér og pallborðsumræður um uppljóstrara og möguleika á að koma upplýsngum til blaðamanna er að finna hér.

 

SKUP verðlaunin

SKUP Ráðstefnan var fyrst haldin árið 1990 og þá mættu nokkrir tugir blaðamanna. Viðburðinum hefur heldur betur vaxið fiskur um hrygg og nú 22 árum síðar er SKUP ráðstefnan orðinn fastur liður í viðburðadagatali norskra blaðamanna og færri komast að en vilja. Þarlendir fjölmiðlar greiða fyrir blaðamenn sína til að sækja ráðstefnuna enda er ráðstefnan einn helsti vettvangur endurmenntunar og til að styrkja tengslanet sitt bæði við norska og erlenda kollega.

Að venju voru SKUP verðlaunin veitt fyrir rannsóknarblaðamennsku ársins en verðlaunin eru mikill heiður enda samkeppnin um þau hörð. Valið byggir fyrst og fremst á rannsóknaraðferðum blaðamannana og hvernig þeir vinna úr gögnum sínum en blaðamenn mega sjálfir tilnefna sig og senda ítarlega skýrslu með umsókninni þar sem þeir greina frá rannsókn sinni. Formaður SKUP, Jan Gunnar Furuly, verður meðal fyrirlesara á ráðstefnu Miðstöðvar rannsóknarblaðamennsku 14.apríl næstkomandi. Þar mun hann m.a. kynna verðlaunaverkefnin og fjalla um rannsóknarblaðamennsku í Noregi.

Eftir jafnt áhugaverða og upplýsandi helgi er ekki annað hægt en að hvetja íslenska blaðamenn til að sækja samskonar ráðstefnur. Norðmenn tóku Frónbúum ákaflega vel og glöddust yfir áhuga okkar á ráðstefnunni. Það má heita næsta víst að norskir kollegar munu aðstoða okkur í hvívetna komi til þess síðar meir. Þó vinnuumhverfi íslenskra og norskra blaðamanna sé um margt mjög ólíkt þá róum við öll að sama ósi. Það er forvitnin sem drífur okkur áfram og eldmóðurinn til að upplýsa um hluti sem eru á stundum kyrfilega grafnir í samfélögum okkar. Það er okkar að grafa upp sannleikann og standa undir nafni sem fjórða valdið.

 

Brynja Dögg Friðriksdóttir

verkefnisstjóri Miðstöðvar rannsóknarblaðamennsku

 

This entry was posted in Fréttir and tagged , , , , . Bookmark the permalink.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *