Samantekt frá ráðstefnu Miðstöðvarinnar 14. apríl

Eftirfarandi er samantekt Brynjólfs Þórs Guðmundssonar, fréttamanns á RÚV, um fyrirlestra fulltrúa þriggja systursamtaka Miðstöðvar Rannsóknarblaðamennsku á Norðurlöndunum, FUJ, Tutkiva og SKUP, en forystufólk þessara félaga kynnti starfsemi félagana á ráðstefnu Miðstöðvarinnar 14.apríl sl.

 

 

Samstarfsfólk en ekki keppinautar

Fulltrúar frá landssamtökum rannsóknarblaðamanna í Danmörku, Finnlandi og Danmörku gerðu grein fyrir samtökum sínum á Ráðstefnu um rannsóknarblaðamennsku um síðustu helgi. Þar var lýst hvernig samtökin eru byggð upp og hvernig reynt er að efla rannsóknarblaðamennsku í þessum þremur löndum og víða um heim.

Hreyfing en ekki félagasamtök

Jan Gunnar Furuly, formaður SKUP – Stiftelsen for en Kritisk og Undersøkendi Presse í Noregi, reið á vaðið og lýsti uppbyggingu og starfsemi samtakanna sem stofnuð voru 1990 og áttu sér fyrirmynd í bandarísku samtökunum Investigative Reporters and Editors. Furuly lagði áherslu á að um hreyfingu væri að ræða en ekki félagasamtök, þannig væri enginn á félagaskrá. Starfið byggði á því að fólk væri reiðubúið að reiða af hendi sjálfboðastarf í þágu margra. Það sýndi sig til dæmis í að allir verða að borga fyrir sig á ráðstefnum samtakanna, þar á meðal framsögumenn.

Verðlauna aðferðir frekar en áhrif umfjöllunar

Ráðstefnurnar eru haldnar á hverju ári og hafa dregið að sér á sjöunda hundrað þátttakenda. Þar eru framsögur, unnið í málstofum og SKUP-verðlaunin veitt. Við val á því hvaða umfjallanir eru verðlaunaðar er lögð meiri áhersla á þær aðferðir sem hafa verið notaðar við vinnslu umfjöllunar en þau áhrif sem hún hefur haft. Þess vegna verða blaða- og fréttamenn sem eru tilnefndir til verðlaunanna að taka saman rannsóknarskýrslu um hvernig þeir unnu umfjöllun sína og hvaða aðferðir þeir notuðu. Þessar skýrslur eru svo birtar á vef SKUP þar sem áhugasamir geta nálgast þær og notfært sér við eigin störf. Þó hefur borið nokkuð á því að þeir sem fjallað hefur verið um hafi freistað þess að nota skýrslurnar í dómsmálum, hafi þeir verið ósáttir við umfjöllunina um sig. Skýrslurnar eru ítarlegar, jafnvel upp á tugi blaðsíðna. Sú gagnrýni hefur heyrst á verðlaunin í seinni tíð að áherslan á aðferðir og nýjungar sé of mikil og því eigi minni fjölmiðlar litla möguleika á að vinna til verðlaunanna. Furuly sagðist þó telja að þau væru öllum hvatning til að gera betur og reynslan sýndi að blaðamenn á litlum miðlum hefðu hlotið verðlaunin.

Víkka út hóp rannsóknarblaðamanna

Eitt af því sem hefur sett mark sitt á starfi finnsku rannsóknarblaðamennskusamtakanna Tutkiva síðustu ár er að gera þau að breiðari vettvangi blaðamanna en áður var, sagði Minna Knus-Galán, formaður Tutkiva. Þannig hefðu samtökin þróast frá því að vera nokkuð lokaður vettvangur fyrir elítu rannsóknarblaðamanna í að vera nú með 120 til 160 félagsmenn. Hugsunin væri sú að það væri ekki fámennur hópur blaðamanna sem sérhæfði sig í rannsóknarblaðamennsku heldur gætu allir lagt stund á rannsóknarblaðamennsku, hvort sem er einvörðungu eða í einstökum málum.

Samtökin voru stofnuð 1992 og er markmið þeirra að blaðamenn geti skipst á ráðum og bent á aðferðir sem hægt sé að notast við, sagði Knus-Galán. Árið 2010 var fyrsta alþjóðlega ráðstefna samtakanna haldinn og var önnur slík ráðstefna haldin í mars. Þar var meðal annars boðið upp á námskeið um gagnarannsóknir en Knus-Galán sagði í fyrirlestri sínum að fyrstu slíku verkefnin í finnskum fjölmiðlum væru nú að hefjast. Tutkiva veitir Snjóskófluverðlaunin fyrir bestu rannsóknarblaðamennskuna (Svíar veita gullnu skófluna).

Í lok fyrirlestur síns lagði Knus-Galán áherslu á að rannsóknir blaðamanna stöðvuðust ekki við landamærin heldur gengju þvert á landamæri. Þess vegna þyrfti rannsóknarblaðamenn að byggja upp sambönd við rannsóknarblaðamenn í öðrum löndum.

Tengslamyndun og stuðningur

Dönsku samtökin Foreningen for Undersøgende Journalistik – FUJ eru elst norrænu rannsóknarblaðamennskusamtakanna, stofnuð árið 1989, og eru félagsmenn um 350 talsins. Þau ná yfir rannsóknarblaðamennsku í öllum miðlum og er markmiðið að efla rannsóknarblaðamennsku hvort tveggja í Danmörku og erlendis.

Morten Hansen, varaformaður FUJ, sagði að á ári hverju standi samtökin fyrir sex til átta fundum sem ætlaðir eru til að hjálpa félagsmönnum að byggja upp sambönd og skiptast á hugmyndum auk þess sem þar eru haldnar framsögur. Að auki er staðið fyrir fjórum til sex tveggja klukkustunda löngum vinnustofum þar sem kennd eru ákveðin atriði, til dæmis hvernig lesa á úr ársreikningum og hvernig megi nota Google Maps við verkefni. Að auki er haldin rannsóknarblaðamennskuráðstefna en á þeim vef má nálgast upptökur af framsögum á ensku.

FUJ verðlaunin eru veitt árlega og skiptast á milli sex miðla; útvarps, sjónvarps/kvikmynda, dagblaða, bóka, tímarita og netsins. Verðlaunin eru ekki veitt nema fram komi verkefni sem þykja standa fyllilega undir því að vera verðlaunuð. Þyki engin umfjöllun nógu góð í einhverjum flokki eru verðlaunin ekki veitt í þeim flokki það árið.

Styrkja rannsóknarblaðamennsku erlendis

Stuðningur við rannsóknarblaðamennsku erlendis er veittur í gegnum nokkra sjóði. Þannig styrkir Scoop rannsóknarblaðamennsku í austanverðri Evrópu, PAIR í Afríku og ARIJ í arabískum löndum. Stuðningurinn getur falist í fjármögnun, samstarfi og fræðslu. Einnig greiðir Scoop fyrir yfirlestur lögmanns á umfjöllun áður en hún er birt til að tryggja að umfjöllunin brjóti ekki í bága við lög.

Hansen sagði frá hugmyndum um að koma upp ProNordika, stofnun sem hefði svipuðu hlutverki að gegna á Norðurlöndum og ProPublica í Bandaríkjunum. Vonin væri að geta stofnað það sjóð sem styrkti rannsóknarblaðamennsku á Norðurlöndum, og sennilega yrði skilyrði að rannsóknirnar tækju til nokkurra norrænna ríkja. Öll aðildarríki myndu eiga fulltrúa í stjórn.

Nauðsyn að vinna saman

Í pallborðsumræðum að loknum framsögum þremenninganna lögðu Knus-Galán og Furuly áherslu á samstarf rannsóknarblaðamanna. „Við erum ekki keppinautar heldur samstarfsmenn,“ sagði Knus-Galán. Furuly sagði að það væri auðvelt fyrir rannsóknarblaðamenn að hafa samband við kollega sína sem þeir hefðu hitt á ráðstefnum og biðja þá um aðstoð eða ráðgjöf.

This entry was posted in Fréttir and tagged , , , , . Bookmark the permalink.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *