Fylgdi innsæinu þrátt fyrir úrtöluraddir

Eftirfarandi er samantekt sem Helga Arnardóttir, fréttamaður á Stöð 2, gerði um fyrirlestur Stephen Grey á ráðstefnu Miðstöðvar rannsóknarblaðamennsku 14. apríl. sl.

 

Uppljóstranir rannsóknarblaðamannsins Stephens Grey á fangaflugi bandarísku leyniþjónustunnar, CIA.

„Fangabúðirnar í Guantanamó voru eingöngu toppurinn á ísjakanum og það var fjöldi fangabúða út um allan heim.“ Þessar tvær staðreyndir vissi breski blaðamaðurinn Stephen Grey eingöngu áður en hann lagði í langa vegferð sína við að leysa ráðgátuna á bakvið fangaflug bandarísku leyniþjónustunnar, CIA.  Eftir nokkurra mánaða rannsókn tókst honum í samstarfi við sænska rannsóknarblaðamennina og blaðamenn á New York Times að sýna fram á að leyniþjónustan CIA, flaug með fanga án dóms og laga um allan heim og kom þeim fyrir í leynifangelsum og fangabúðum þar sem þeir voru yfirheyrðir og pyntaðir, grunaðir um hryðjuverk. Fangaflugunum snarfjölgaði eftir hryðjuverkaárásirnar í New York 11. september 2001.

Stephen Grey hafði unnið fyrir rannsóknarteymið hjá Sunday Times í tvö ár þegar hann ákvað að segja starfi sínu lausu og gerast sjálfstætt starfandi blaðamaður árið 2003. Hann hóf umfangsmikla rannsókn á fangafluginu sem hann hafði heyrt lítillega af en þó ekkert fengið staðfest.  Grey lýsir því í bók sinni Ghost Plane; The True Story of the CIA Torture Program (2006) að fáir höfðu trú á þessu gríðarstóra verkefni sem hann ætlaði að takast á hendur. Hann bar ugg í brjósti í fyrstu en ákvað að fylgja innsæinu og rannsaka það að fullu á eigin forsendum fyrir eigið fjármagn.  Grey vann með blaðamönnum víða um heim við rannsóknina og þetta mál er gott dæmi um samstarf blaðamanna þvert á landamæri.

Fréttir af fangafluginu eru ekki eingöngu uppljóstranir af leyniþjónustu Bandaríkjanna sem þykja magnaðar í sjálfu sér heldur kynnti Grey til sögunnar ýmsar ólíkar rannsóknaraðferðir við gagnöflun. Þetta kallast gagnablaðamennska eða data journalism. Hann átti góðan heimildarmann í flugiðnaðinum en það var ekki nóg. Hann studdist við opinber skjöl og gagnagrunna á netinu um flugvélar og flugmennina sem flugu þeim. Þá studdist hann við vefsíður erlendra flugáhugamanna sem skráðu niður númer vélanna á flugvöllum og tóku af þeim myndir. Grey notaði svo forritið Analysts’ Note til að vinna úr fjölda gagna sem negldi niður punkta og sýndi ákveðið mynstur flugferða. Með því að rekja ferðir einnar CIA flugvélar sem var með númerið N-379 náði hann að rekja sig í gegnum net flugferða á vegum leyniþjónustunnar víða um heim.

Uppljóstrunum Stephen Grey hefur verið lýst sem skúbbi aldarinnar hin síðari ár og er hann margverðlaunaður fyrir störf sín.  Grey flutti erindi á ráðstefnu á vegum Miðstöðvar í rannsóknarblaðamennsku hér á landi fyrir skemmstu. Þar sagðist hann ekki hafa látið hindra sig í rannsóknum á þessu umfangsmikla mannréttindabroti Bandaríkjamanna þrátt fyrir ítrekaðar úrtöluraddir.

Grey hvatti íslenska blaðamenn til að fylgja málum eftir og gefast ekki upp við sínar  rannsóknir. Erindi hans hefur án efa gefið þeim innblástur og hvatningu til að efla rannsóknarblaðamennsku hér á landi. Minnistæðast er það sem einn blaðamaðurinn á ráðstefnunni sagði; “walk that extra mile, it pays off.”  Hægt er að lesa meira um þetta stóra fréttamál í bók Stephens Grey, Ghost Plane; The True Story of the CIA Torture Program (2006)  og kynna sér önnur verk hans á vefsíðunni www.stephengrey.com.

 

 


This entry was posted in Fréttir and tagged , , , , . Bookmark the permalink.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *