Ráðstefna Miðstöðvarinnar 6. apríl

Miðstöð rannsóknarblaðamennsku á Íslandi verður með ráðstefnu um rannsóknarblaðamennsku laugardaginn 6. apríl á Reykjavík Natura (áður Hótel Loftleiðir). Líkt og í fyrra verða bæði innlendir og erlendis fyrirlesarar á ráðstefnunni.

Nils Hanson, ritstjóri fréttaskýringarþáttarins þáttarins Uppdrag Granskning á sænska ríkissjónvarpinu, hefur staðfest komu sína á ráðstefnuna. Nils Hanson kallar fyrirlestur sinn ABC of Investigative Journalism. Hann útskýrir vinnuferli rannsóknarblaðamennskunar frá því að blaðamaðurinn byrjar að grafa og þar til fréttin er tilbúin. Nils hefur flutt þennan fyrirlestur víða, m.a. á dönsku rannsóknarblaðamennskuráðstefnunni 2009  og hann verður einnig gestur á ráðstefnu SKUP nú í mars. Á heimasíðu Uppdrag granskning má finna hagnýtar upplýsingar frá Nils um vinnuferli í rannsóknarblaðamennsku (á sænsku).

Uppdrag Granskning þættirnir hafa margir hverjir vakið gríðarlega athygli bæði í Svíþjóð og víðar, og skemmst er að minnast stórra mála eins og umfjöllunar Sven Bergmans og Fredriks Laurin um fangaflutninga CIA og TeliaSonera svo dæmi séu tekin. Bæði Nils og kollegar hans hafa unnið fjölda blaðamennskuverðlauna fyrir fréttaskýringar í þættinum.

Dagskrá ráðstefnunnar er í vinnslu og verður kynnt á næstunni, en ráðstefnan mun standa allan daginn. Ráðstefnugjaldið er 20.000. Greiða þarf 2.000 kr. staðfestingargjald við skráningu, en BÍ greiðir restina af ráðstefnugjaldinu, 18.000 kr. fyrir sína félagsmenn. Félagar í Félagi fréttamanna á RÚV þurfa að greiða allt ráðstefnugjaldið sjálfir og sækja svo um endurmenntunarstyrk hjá BHM sem hefur gefið vilyrði fyrir styrkjum til sinna félagsmanna. Félagsmenn annarra stéttarfélaga (s.s. myndatökumenn, pródúsentar, ljósmyndarar, tæknifólk) eru hvattir til að kynna sér endurmenntunarstyrki sinna stéttarfélaga.

Skráning á ráðstefnuna fer fram hjá starfsmanni ICIJ, Brynju Dögg Friðriksdóttur icij@hi.is Síðasti dagur til að skrá sig á ráðstefnuna er föstudagurinn 22. mars.

 

This entry was posted in Fréttir and tagged , , , , . Bookmark the permalink.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *