Fyrirlesarar

Líkt og í fyrra munu handhafi verðlauna Blaðamannafélags Íslands fyrir rannsóknarblaðamennsku og tilnefndir blaðamenn greinar frá fréttamálum sínum á ráðstefnunni. Þeir eru;

Jóhann Bjarni Kolbeinsson, RÚV, sem hlaut verðlaunin BÍ fyrir umfjöllun sína um kadmíum í áburði og notkun iðnaðarsalts í matvælum. Jóhann Bjarni var fréttamaður á RÚV frá mars 2011 til ágúst 2012. Þar áður var hann meðal annars blaðamaður á Morgunblaðinu frá 2005 til 2009. Jóhann Bjarni er með stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík, BA-próf í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og er nú í mastersnámi í viðskiptafræði og stjórnun við Háskólann í Uppsala í Svíþjóð. Hann kemur aftur til starfa á fréttastofu RÚV í sumar. Jóhann Bjarni mun flytja stutt erindi um þær fréttir sem hann hlaut verðlaun fyrir á dögunum, en hann mun tala í gegnum Skype frá Svíþjóð.

Andri Ólafsson, Stöð 2, fyrir umfjöllun sína af fjárhagsvanda hjúkrunarheimilisins EIR.

Jóhannes Kr. Kristjánsson, Kastljósi RÚV, fyrir óbirtar og gagnrýnar skýrslur Ríkisendurskoðunar um bókhaldskerfi ríkisins og innleiðingu kerfisins.

Chris Woods, The Bureau of Investigative Journalism, London. Woods rannsakaði nýverið notkun á mannlausum árásarfluvélum í stríði og hefur umfjöllun hans birst í the Guardian, the Sunday Times,  the Daily Telegraph, the Independent, the New Statesman og víðar. Woods hefur m.a. starfað sem framleiðandi Newsnight og Panorama þáttanna á BBC og þá hefur hann skrifað og leikstýrt fjölda heimildamynda fyrir  Al Jazeera og Dispatches á Channel 4 í Bretlandi. Woods var nýverið tilnefndur til Foreign Press Association verðlaunanna.

Marit Higraff og Harald Eraker, Uppruni lýsis í norskum Omega-3 hylkjum. 

Marit Higraff hefur unnið sem blaðamaður, þáttastjórnandi og sjónvarpsfréttamaður hjá mörgum deildum á norska ríkissjónvarpinu, NRK frá árinu 1993. Hún hóf störf á íþróttadeildinni þar sem hún vann fyrstu fréttaumfjöllun sína byggða á rannsóknarblaðamennsku árið 1995. Á síðustu tíu árum hefur Marit sérhæft sig í rannsóknar-blaðamennsku, t.d. í heimildamyndum og fréttaskýringaþáttum eins og NRK Brennpunkt, og neytendþáttunum FBI: Forbrukerinspektörene. Marit vinnur um þessar mundir á fréttadeild NRK í þættinum NRK Dagsrevyen.

 

Harald Eraker hefur unnið sem blaðamaður og við rannsóknarvinnu fyrir heimildamyndir hjá fjölmörgum deildum á NRK frá 2007. Hann hóf störf sem blaðamaður hjá NorWatch árið 1995, þar sem hann rannsakaði umhverfismál og mannréttindamál norskra fyrirtækja sem starfa í Asíu, Afríku og Suður-Ameríku. Hann vann sem rannsóknarblaðamaður hjá tímaritinu NY Tid frá 2001-2007.  Harald starfar um þessar mundir við heimildamyndaagerð og fréttaskýringar fyrir NRK Brennpunkt.

Á ráðstefnunni munu Marit og Harald segja frá umfjöllun sinni í neytendaþáttunum FBI; Forbrukerinspektörene um lýsi í Omega-3 lýsishylkjum. Umfjöllun þeirra vakti mikla athygli í Noregi þau upplýstu að lýsið í hylkunum væri ansjósu og sardínulýsi frá Peru og Chile, en ekki lýsi úr norskum þorski. Lýsisfyrirtækin í Peru og Chile, sem eru að hluta til í eigu norskra fyrirtækja, valda auk þess mikilli mengun sem er heilsuspillandi fyrir íbúa í borgunum sem verksmiðjurnar eru í. Hér eru FBI þættirnir um Omega-3 lýsishylkin; þáttur 9. nóvember 2011 og þáttur 16. nóvember 2011.

Nils Hanson, ABC of Investigative JournalismNils Hanson er ritstjóri fréttaskýringarþáttarins þáttarins Uppdrag Granskning á sænska ríkissjónvarpinu. Uppdrag Granskning fór í loftið árið 2001. Þættirnir hafa margir hverjir vakið gríðarlega athygli bæði í Svíþjóð og víðar, og skemmst er að minnast stórra mála eins og umfjöllunar Sven Bergmans og Fredriks Laurin um fangaflutninga CIA og TeliaSonera svo dæmi séu tekin. Bæði Nils og kollegar hans hafa unnið fjölda blaðamennskuverðlauna fyrir fréttaskýringar í þættinum.

Hanson kallar fyrirlestur sinn ABC of Investigative Journalism. Hann útskýrir vinnuferli rannsóknarblaðamennskunar frá því að blaðamaðurinn byrjar að grafa og þar til fréttin er tilbúin. Nils hefur flutt þennan fyrirlestur víða, m.a. á dönsku rannsóknarblaðamennskuráðstefnunni 2009 og hann verður einnig gestur á ráðstefnu SKUP nú í mars. Á heimasíðu Uppdrag granskning má finna hagnýtar upplýsingar frá Nils um vinnuferli í rannsóknarblaðamennsku (á sænsku).

Hér eru tvær stórar fréttaskýringar Uppdrag granskning; The Black Boxes: How TeliaSonera Sells to Dictatorships og Karlar sem nethata konur.

Harald Birkevold og Hans Petter Aass, Norski olíu- og gas iðnaðurinn og dauðsföll í olíuiðnaðinum

Harald Birkevold hefur stýrt rannsóknarblaðamennskudeildinni á Stavanger Aftenblad frá 2007. Þar áður stýrði hann orku- og viðskiptafréttadeildinni á blaðinu en hann hefur skrifað um olíu- og gasiðnaðinn, orkumál og viðskipti í níu ár. Harald er auk þess að skrifa bók um efnahagskreppuna í Evrópu og áhrif hennar á ungmenni í nokkrum evrópskum löndum. Á ráðstefnunni mun Harald fjalla um olíu- og gasiðnaðinn í Noregi og rannsóknarblaðamennsku á Stavanger Aftenblad.

Hans Petter Aass hefur unnið sem blaðamaður hjá Stavanger Aftenblad frá 2007. Þar áður var hann blaðamaður hjá VG, stærsta dagblaði Noregs, í 17 ár. Hans Petter hefur fjallað mikið um spillingu, skipulagða glæpastarfsemi og hernað. Hann hefur skrifað tvær metsölubækur, Dødsranet – David Toska and the road to Nokas (2009) og War hero – Inside secret Norway (2012), með Rolf J. Widerøe. Á ráðstefnunni mun Hans Petter segja frá vinnu sinni við De glemte oljeofrene, fréttaraðar um dauðsföll í norska olíuðinaðinum frá upphafi olíuvinnslu í Noregi 1967. Hér má sjá hluta þeirrar umfjöllunar.

Páll Hilmarsson,  Tæki og tól við gagnablaðamennsku. Páll er sjálfstætt starfandi gagnablaðamaður (e. data journalist) sem hefur komið víða við á starfsferli sínum. Hann heldur úti vefsvæðinu gogn.in þar sem birtar eru greinar um gagnavinnslu og fjölmiðla. Nýverið vakti töluverða athygli fréttaskýringar í Fréttablaðinu um eignarhald á jörðum sem Páll vann í samstarfi við Kolbein Proppé en gögnum til grundvallar var safnað með vélrænum hætti. Fyrirlesturinn kallar Páll Tæki og tól við gagnablaðamennsku og í honum verður farið yfir helstu aðferðir, hugmyndafræði og tæki við gagnablaðamennsku. Ef áhugi er fyrir hendi, hyggst Páll halda vinnustofu í apríl þar sem þátttakendur takast á við að safna gögnum sem áhugi er á, með þeim tækjum sem standa til boða.

Skráning á ráðstefnuna fer fram á icij@hi.is fyrir 28. mars.  

 

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *