Fyrirlesarar 2012

Eftirfarandi einstaklingar eru staðfestir fyrirlesarar á ráðstefnunni;

Svavar Hávarðsson, Fréttablaðinu. Svavar fékk á dögunum rannsóknarblaðamennskuverðlaun BÍ fyrir umfjöllun sína um díoxínmengun frá sorpbrennslum í Skutulsfirði, á Kirkjubæjarklaustri og í Vestmannaeyjum.

Ingi Freyr Vilhjálmsson, DV. Ingi var tilnefndur til rannsóknarblaðamannaverðlaunanna fyrir umfjöllun sína um uppgjör og afleiðingar fjármálahrunsins fyrr á þessu ári. Ingi hefur starfað sem blaðamaður á DV frá 2008 og er nú fréttastjóri. Hann var áður á Fréttablaðinu  þar sem hann var fastráðinn 2006-2007, en sumarstarfsmaður 2004-2006. Ingi lauk mastersnámi við í heimspeki við Háskólann í St. Andrews í Skotlandi 2008, og er með BA-gráður  í sagnfræði og heimspeki frá Háskóla Íslands.

Jóhannes Kr. Kristjánsson, Kastljósi. Tilefndur til rannsóknarblaðamannaverðlaunanna fyrir umfjöllun sína um útbreiðslu og afleiðingar læknadóps.

Sven Bergmann og Fredrik Laurin – SE. Sven og Fredrik hafa um árabil verið helstu rannsóknarblaðamenn Svíþjóðar. Þeir hafa helst einbeitt sér að heimildarmyndum og sérverkefnum fyrir hinn virta fréttaskýringaþátt Uppdrag Granskning sem sýndur er í sænska ríkissjónvarpinu. Þeir hafa unnið til sænskra og alþjóðlegra rannsóknarblaðamannaverðlauna fyrir fréttir sínar. Sven og Frederik munu á ráðstefnunni kynna stærstu verkefni sín og segja frá aðferðarfræðinni, tólunum og tækninni sem þeir notast við.

Morten Hansen – DK. Morten er þekktur rannsóknarblaðamaður í Danmörku og er varaformaður dönsku rannsóknarblaðamannasamtakanna FUJ. Hann hefur komið víða við í sinni blaðamennsku og meðal annars vann hann sem rannsakari og umsjónarmaður í ritstjórn fréttaskýringaþáttarins Operation X sem er sýndur á TV2 í Danmörku við miklar vinsældir. Þátturinn vann rannsóknarblaðamannaverðlaun Danmerkur á síðasta ári. Morten mun á ráðstefnunni kynna starfsumhverfi danskra rannsóknarblaðamanna og verðlaunaverkefni síðasta árs.

Miranda Patrucic – BA. Miranda er í forsvari fyrir miðstöð um rannsóknarblaðamennsku í Bosníu og stýrir hópi rannsóknarblaðamanna, Organized Crime and Corruption Reporting Project sem einbeita sér að því að elta slóð peninga. Hópurinn hennar hefur unnið margar fréttir um peningaþvætti, dópsmygl og spillta embættismenn í Austur-Evrópu. Miranda mun á ráðstefnunni fara í gegnum stærstu fréttirnar sem hún hefur stýrt vinnu við – fréttir sem hafa vakið alþjóðlega athygli.

Stephen Gray – UK. Grey er margverðlaunaður fyrir störf sín en mesta athygli vakti afhjúpun hans á fangaflugi CIA sem meðal annars tengdist Íslandi. Hann ritaði fjölda greina um málið fyrir blöð og tímarit, gerði fréttaþætti fyrir sjónvarp í Bandaríkjunum og Bretlandi og ritaði bókin Ghost Plane; The True Story of the CIA Torture Program (2006). Fjöldi blaðamanna frá ýmsum löndum komu að þessu verkefni og hefur þess oft verið getið sem skólabókardæmi um árangursríka samvinnu blaðamanna þvert á landamæri til þess að ná utan um frétt sem teygir anga sína víða. Grey hefur einnig fjallað um stríðsátök og öryggismál í víðum skilningi. Hann hefur töluvert dvalið í Afganistan og flutt þaðan fréttir. Árið 2009 kom út önnur bók hans sem fjallaði um stríðsátökin í Helmand héraði en hún bar titilinn Operation Snakebite; The explosive True Story of the Afghan Desert Siege. Eftir útkomu bókarinnar fór hann ítrekað til Afganinstan og flutt fréttir þaðan fyrir Sunday Times, Le Monde Diplomatique og Channel 4 News. Í desember s.l. gékk hann til liðs við Reuters fréttaveituna í nýja deild sem ætlað er að leggja rækt við rannsóknarblaðamennsku. Á ráðstefnunni 14. apríl mun Grey, fjalla um rannsóknarblaðamennsku, alþjóðlegt samstarf, vinnslu úr stórum gagnasöfnum og almennt um eigin verk. Nánari upplýsingar um Grey hér.

Giannina Segnini – CR. Giannina er blaðamaður hjá La Nacion í Costa Rica í tæp 20 ár. Hún stofnaði einingu um rannsóknarblaðamennsku innan blaðsins en hún samanstendur af þremur blaðamönnum og tveimur tölvusérfræðingum. Afhjúpanir þeirra hafa leitt til yfir 50 lögsókna gegn stjórnmálamönum, opinberum starfsmönnum og mönnum í viðskipalífinu. Á meðal þeirra eru tveir fyrrverandi forsetar Costa Rica sem hlutu dóma í spillingarmálum sem La Nacion fletti ofan af. Eitt stærsta málið var mútuhneyksli sem tengdist alþjóðlega fyrirtækinu Alcatel. Afleiðingin var opinber rannsókn í Bandaríkjunum, Frakklandi og Costa Rica (fjarskiptafyrirtækið varð m.a. að greiða yfir $137 milljónir bandaríkjadala í sekt til að koma sér undan lögsókn í USA. Nefna má annað alþjóðlegt spillingarmál sem teygði anga sína til Finnlands. Á allra síðustu árum hefur ,,gagnablaðamennska” (data journalism) þessarar rannsóknareiningar vakið alþjóðlega athygli. Einingin starfrækir gagnaver sem malar allan sólarhringin, dregur saman upplýsingar af netinu og opnum gagnagrunnum. Samkeyrsla gagnanna hefur leitt til fjölda fréttamála. Aðferðafræði og nálgun Gianninu og félaga hefur verið vakning margra í samkeyrslu og úrvinnslu stórra gagnasafna. Meira um Gianninu Segnini hér.

 

Hjálmar Gíslason – IS. Hjálmar Gíslason er stofnandi og framkvæmdarstjóri Datamarket.com. Hann hefur mikla reynslu úr hugbúnaðar- og frlumkvöðlageiranum en Datamarket er fjórða fyrirtækið sem hann stofnar. Fyrri fyrirtæki hafa verið á sviði leitartækni, farsímahugbúnaðar og smáleikja. Hjálmar starfaði einnig sem forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá Símanum og kom m.a að þróun Já.is en hann er jafnframt tæknilegur ráðgjafi fyrir þróun og rekstur símaskrárvefjarins. Hjálmar mun fjalla um þjónustu Datamarket.com og hvernig hún nýtist við gagna- og rannsóknarblaðamennsku.

Samúel White – IS. Samúel er viðskiptafræðingur að mennt og starfar sem forstöðumaður fyrirtækjasviðs hjá Creditinfo á Íslandi.  Samúel hefur margra ára reynslu af íslenskum fyrirtækjamarkaði og hefur unnið með fjölmörgum fyrirtækjum og stofnunum  um hvernig hámarka megi nýtingu upplýsinga við áhættustjórnun.  Hann þekkir vel til þeirra upplýsinga sem aðgengilegar eru um fyrirtæki og einstaklinga,  hvernig þær nýtast ólíkum atvinnugreinum og geta stuðlað að auknu gagnsæi á  íslenskum markaði.  Samúel hefur komið að mörgum greiningarverkefnum og stuðlað að því að upplýsingum og tölfræðigögnum úr grunni fyrirtækisins sé miðlað til fjölmiðla á Íslandi. Samúel mun í kynningu sinni rýna nánar í gagnagrunn fyrirtækisins með áherslu á eignatengsl fyrirtækja og einstaklinga og hvernig fjölmiðlar geta sparað sér vinnu og tíma með aðstoð fyrirtækisins.

Giannina, Samúel og Hjálmar verða í pallborðsumræðum um gagnablaðamennsku og fjalla um þá möguleika sem eru fyrir hendi í gagna- og rannsóknarblaðamennsku hér á landi.

 

 

 

 

 

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *