Ráðstefna Miðstöðvarinnar 6. apríl

Miðstöð rannsóknarblaðamennsku á Íslandi verður með ráðstefnu um rannsóknarblaðamennsku laugardaginn 6. apríl á Reykjavík Natura (áður Hótel Loftleiðir). Líkt og í fyrra verða bæði innlendir og erlendis fyrirlesarar á ráðstefnunni.

Nils Hanson, ritstjóri fréttaskýringarþáttarins þáttarins Uppdrag Granskning á sænska ríkissjónvarpinu, hefur staðfest komu sína á ráðstefnuna. Nils Hanson kallar fyrirlestur sinn ABC of Investigative Journalism. Hann útskýrir vinnuferli rannsóknarblaðamennskunar frá því að blaðamaðurinn byrjar að grafa og þar til fréttin er tilbúin. Nils hefur flutt þennan fyrirlestur víða, m.a. á dönsku rannsóknarblaðamennskuráðstefnunni 2009  og hann verður einnig gestur á ráðstefnu SKUP nú í mars. Á heimasíðu Uppdrag granskning má finna hagnýtar upplýsingar frá Nils um vinnuferli í rannsóknarblaðamennsku (á sænsku).

Uppdrag Granskning þættirnir hafa margir hverjir vakið gríðarlega athygli bæði í Svíþjóð og víðar, og skemmst er að minnast stórra mála eins og umfjöllunar Sven Bergmans og Fredriks Laurin um fangaflutninga CIA og TeliaSonera svo dæmi séu tekin. Bæði Nils og kollegar hans hafa unnið fjölda blaðamennskuverðlauna fyrir fréttaskýringar í þættinum.

Dagskrá ráðstefnunnar er í vinnslu og verður kynnt á næstunni, en ráðstefnan mun standa allan daginn. Ráðstefnugjaldið er 20.000. Greiða þarf 2.000 kr. staðfestingargjald við skráningu, en BÍ greiðir restina af ráðstefnugjaldinu, 18.000 kr. fyrir sína félagsmenn. Félagar í Félagi fréttamanna á RÚV þurfa að greiða allt ráðstefnugjaldið sjálfir og sækja svo um endurmenntunarstyrk hjá BHM sem hefur gefið vilyrði fyrir styrkjum til sinna félagsmanna. Félagsmenn annarra stéttarfélaga (s.s. myndatökumenn, pródúsentar, ljósmyndarar, tæknifólk) eru hvattir til að kynna sér endurmenntunarstyrki sinna stéttarfélaga.

Skráning á ráðstefnuna fer fram hjá starfsmanni ICIJ, Brynju Dögg Friðriksdóttur icij@hi.is Síðasti dagur til að skrá sig á ráðstefnuna er föstudagurinn 22. mars.

 

Posted in Fréttir | Tagged , , , , | Leave a comment

Annie Machon á Pressukvöldi 21. febrúar

Blaðamannafélag Íslands og Miðstöð rannsóknarblaðamennsku á Íslandi standa fyrir Pressukvöldi með Annie Machon, fyrrum njósnara MI5 og framkvæmdastjóra LEAP, í Gym & Tonic salnum á Kex hosteli, fimmtudagskvöldið 21. febrúar kl. 20:30.

 ,,The War Against Drugs, The War Against Terror and The War Against the Internet are all interconnected,”Annie Macon

Machon starfaði í fimm ár í innanlandsdeild bresku leyniþjónustunnar, MI5, en hætti störfum og gerðist uppljóstrari til að fletta ofan af vanhæfni og lögbrotum fjölmargra njósnara stofnunarinnar. Machon er þekkt fyrir sérþekkingu sína á fjölmiðlum, ýmsum sviðum stjórnsýslu og starfsemi leyni- og öryggisstofnana. Hún beitir sér fyrir opnari stjórnsýslu og ábyrgð hjá hinu opinbera sem og í einkageiranum.

Machon er eftirsóttur ræðumaður og á Pressukvöldinu mun hún fjalla um uppljóstrara   og vernd þeirra ásamt því að ræða eigin reynslu af störfum sínum fyrir bresku leyniþjónustuna MI 5. Pressukvöldið er eins og áður segir í Gym & Tonic sal Kex Hostelsins, Skúlagötu 28, fimmtudagskvöldið 21. febrúar kl. 20:30.

Það er Snarrótin, samtök um borgaraleg réttindi, sem skipuleggur komu Machon til landsins.  Machon mun halda fjölda fyrirlestra á vegum Snarrótarinnar dagana 21.-28. febrúar um frelsi internetsins, fíkniefnastríðið og persónunjósnir. Sambýlismaður Machon, Arjen Kamphuis, verður einnig með í för og hann heldur námskeið um dulkóðun og gagnaöryggi á netinu ásamt Smára McCarthy í Grasrótarmiðstöðinni, Brautarholti 4, kl. 14:00-21:30 laugardaginn 23. febrúar. Á námskeiðinu munu Arjen, Smári og vösk sveit leiðbeinenda aðstoða við uppsetningu dulkóðaðs tölvupósts og öruggs vefskoðara á Linux, Mac og Windows tölvum. Þátttakendur geta komið með fartölvu eða spjaldtölvu til að setja upp og læra að nota PGP dulkóðun í tölvusamskiptum. Machon verður á staðnum frá kl. 15 og tekur þátt í óformlegu rabbi um lögvæðingu, starfsemi njósnastofnana og persónuvernd á netinu. Blaða- og fjölmiðlamenn eru sérstaklega hvattir til að mæta á námskeiðið en það er ókeypis og öllum opið.

Nánari upplýsingar um fyrirlestrarröð Machon og viðburði á vegum Snarrótarinnar, má finna á heimasíðu samtakanna; www.snarrotin.is Þar er einnig ítarefni, m.a. viðtöl við hana;

Viðtal við Machon um LEAP

Viðtal við Machon á NRK1

Hægt er að kynna sér störf Machon á heimasíðu hennar;  www.anniemachon.ch og starfsemi LEAP (Law Enforcement Against Prohibition) hér; www.leap.cc

Posted in Fréttir | Tagged , , , , , | Leave a comment

Fréttamannastyrkir Norðurlandaráðs

Blaðamannafélagið auglýst í dag fréttamannastyrki Norðulandaráðs en umsóknarfresturinn er til 18.júní næstkomandi. Að þessu sinni er sérstök áhersla á  norrænt þingmannasamstarf og afmælisþing Norðurlandaráðs í Helsinki í tilefni 60 ára afmælis Norðurlandaráðs, líkt og segir í tilkynningu frá Íslandsdeild Norðurlandaráðs. Styrkirnir eru jafnt fyrir blaðamenn í föstu starfi  hjá dagblöðum, tímaritum, útvarpi og sjónvarpi sem og sjálfstætt starfandi blaðamenn.

Á síðasta ári fengu sjö íslenskir blaðamenn styrki sem voru frá Dkr 8.000-20.000. Hér er listi yfir styrkþega síðustu ára.

Tilkynning fréttamannastyrkir NR 2012

Umsókn um fréttamannastyrk NR 2012

Posted in Fréttir, Styrkir | Tagged , , , , | Leave a comment

Nytsamlegar vefslóðir fyrir gagnablaðamennsku

Margot Williams, blaðamaður hjá National Public Radio í Washington DC, var ein fyrirlesara á ráðstefnu SKUP í Tönsberg í Noregi fyrr á þessu ári. Fyrirlestur hennar bar heitið Effective Information Mining on the web: Using international databases to get information about persons and companies. 

Williams hefur mikla reynslu á sviði gagna- og rannsóknarblaðamennsku og hér má sjá yfirlit yfir hennar helstu störf og verkefni.  Á fyrirlestrinum dreifði Williams skjali með fjölmörgum vefslóðum sem nýtast blaðamönnum til að finna upplýsingar um einstaklinga og fyrirtæki.

 Vefsíður Margot Williams / National Public RadioPublic Radio

Posted in Fréttir | Tagged , , , , , | Leave a comment

Niðurstöður spurningakönnunar

Þátttakendur á ráðstefnu Miðstöðvarinnar 14.apríl sl. voru mjög ánægðir með ráðstefnuna en þessar upplýsingar koma skýrt fram í niðurstöðum spurningakönnunar sem Félagsvísindastofnun HÍ sendi út fyrir Miðstöð rannsóknarblaðamennsku til að kanna álit þátttakenda á ráðstefnunni.

Alls var svarhlutfall um 65% eða 35 einstaklingar en könnunin var send út til 53 þátttakenda á ráðstefnunni af þeim 72 sem sátu hana. 25 voru mjög ánægðir með ráðstefnuna og 9 voru frekar ánægðir. Þá ætla allir svarendur að mæla með ráðstefnunni við aðra blaðamenn.  29 þeirra telja mjög líklegt að þeir sitji sambærilega ráðstefnu á næsta ári og 6 telja það frekar líklegt.

Fyrirlestur Svíanna Fredriks Laurin og Sven Bergmans þótti áhugaverðasti fyrirlesturinn. Tæplega helmingur svarenda nefndi fyrirlestur Gianninu Segnini um gagnablaðamennsku eða datajournalism sem áhugaverðasta fyrirlesturinn. Þá virðist vera áhugi meðal þátttakenda á ráðstefnunni að fræðast enn frekar um gagnablaðamennsku, bæði á ráðstefnunni á næsta ári og í styttri vinnusmiðjum.

Stjórn og starfsfólk Miðstöðvarinnar og erlendir gestir / fyrirlesarar tóku ekki þátt í spurningakönnuninni. Meðfylgjandi eru niðurstöður könnunarinnar.

Niðurstöður úr spurningakönnun í tengslum við ráðstefu ICIJ

Posted in Fréttir | Tagged , , | Leave a comment

Miðstöð rannsóknarblaðamennsku fær inngöngu í GIJN

Miðstöð rannsóknarblaðamennsku á Íslandi hefur fengið inngöngu í Global Investigative Journalism Network sem eru samtök um 50 rannsóknarblaðamennskustofnana og NGO samtaka í um 30 löndum. Það er mikill heiður að fá aðild að samtökunum en þau eru hálfgerð regnhlífarsamtök fyrir rannsóknarblaðamennsku í heiminum.

Markmið GIJN  eru eftirfarandi;

– Að aðstoða við að skipuleggja og kynna ráðstefnur og vinnusmiðjur um allan heim.

– Að aðstoða við að stofna og viðhalda stofnunum sem leggja áherslur á rannsóknar- og gagnablaðamennsku um allan heim.

– Að hvetja til og kynna bestu aðferðir í rannsóknar- og gagnablaðamennsku.

– Að hvetja til og kynna leiðir til að tryggja frían aðgang að almennum skjölum og upplýsingum í hverju landi.

– Að kynna greiða fyrir og hvetja til að meðlimir samtakanna og rannsóknarblaðamenn styrki tenglsanet sín á milli.

GIJN  skipuleggur alþjóðlega ráðstefnu um rannsóknarblaðamennsku sem haldin er annað hvert ár. Sú næsta verður haldin í október 2013 í Rio de Janeiro og verður að sjálfsögðu stefnt að því að fjölmenna á þá ráðstefnu frá Íslandi en hún er stærsta ráðstefna sinnar tegundar í heiminum. Við hvetjum alla til að kynna sér síðu GIJN en þar er m.a að finna langan lista yfir mögulega styrki og ‘fellowships’ sem bjóðast blaðamönnum um allan heim. Eins eru samtökin með síðu á Facebook.

Posted in Fréttir, Námskeið og endurmenntun, Styrkir | Tagged , , , , , | Leave a comment

Fylgdi innsæinu þrátt fyrir úrtöluraddir

Eftirfarandi er samantekt sem Helga Arnardóttir, fréttamaður á Stöð 2, gerði um fyrirlestur Stephen Grey á ráðstefnu Miðstöðvar rannsóknarblaðamennsku 14. apríl. sl.

 

Uppljóstranir rannsóknarblaðamannsins Stephens Grey á fangaflugi bandarísku leyniþjónustunnar, CIA.

„Fangabúðirnar í Guantanamó voru eingöngu toppurinn á ísjakanum og það var fjöldi fangabúða út um allan heim.“ Þessar tvær staðreyndir vissi breski blaðamaðurinn Stephen Grey eingöngu áður en hann lagði í langa vegferð sína við að leysa ráðgátuna á bakvið fangaflug bandarísku leyniþjónustunnar, CIA.  Eftir nokkurra mánaða rannsókn tókst honum í samstarfi við sænska rannsóknarblaðamennina og blaðamenn á New York Times að sýna fram á að leyniþjónustan CIA, flaug með fanga án dóms og laga um allan heim og kom þeim fyrir í leynifangelsum og fangabúðum þar sem þeir voru yfirheyrðir og pyntaðir, grunaðir um hryðjuverk. Fangaflugunum snarfjölgaði eftir hryðjuverkaárásirnar í New York 11. september 2001.

Stephen Grey hafði unnið fyrir rannsóknarteymið hjá Sunday Times í tvö ár þegar hann ákvað að segja starfi sínu lausu og gerast sjálfstætt starfandi blaðamaður árið 2003. Hann hóf umfangsmikla rannsókn á fangafluginu sem hann hafði heyrt lítillega af en þó ekkert fengið staðfest.  Grey lýsir því í bók sinni Ghost Plane; The True Story of the CIA Torture Program (2006) að fáir höfðu trú á þessu gríðarstóra verkefni sem hann ætlaði að takast á hendur. Hann bar ugg í brjósti í fyrstu en ákvað að fylgja innsæinu og rannsaka það að fullu á eigin forsendum fyrir eigið fjármagn.  Grey vann með blaðamönnum víða um heim við rannsóknina og þetta mál er gott dæmi um samstarf blaðamanna þvert á landamæri.

Fréttir af fangafluginu eru ekki eingöngu uppljóstranir af leyniþjónustu Bandaríkjanna sem þykja magnaðar í sjálfu sér heldur kynnti Grey til sögunnar ýmsar ólíkar rannsóknaraðferðir við gagnöflun. Þetta kallast gagnablaðamennska eða data journalism. Hann átti góðan heimildarmann í flugiðnaðinum en það var ekki nóg. Hann studdist við opinber skjöl og gagnagrunna á netinu um flugvélar og flugmennina sem flugu þeim. Þá studdist hann við vefsíður erlendra flugáhugamanna sem skráðu niður númer vélanna á flugvöllum og tóku af þeim myndir. Grey notaði svo forritið Analysts’ Note til að vinna úr fjölda gagna sem negldi niður punkta og sýndi ákveðið mynstur flugferða. Með því að rekja ferðir einnar CIA flugvélar sem var með númerið N-379 náði hann að rekja sig í gegnum net flugferða á vegum leyniþjónustunnar víða um heim.

Uppljóstrunum Stephen Grey hefur verið lýst sem skúbbi aldarinnar hin síðari ár og er hann margverðlaunaður fyrir störf sín.  Grey flutti erindi á ráðstefnu á vegum Miðstöðvar í rannsóknarblaðamennsku hér á landi fyrir skemmstu. Þar sagðist hann ekki hafa látið hindra sig í rannsóknum á þessu umfangsmikla mannréttindabroti Bandaríkjamanna þrátt fyrir ítrekaðar úrtöluraddir.

Grey hvatti íslenska blaðamenn til að fylgja málum eftir og gefast ekki upp við sínar  rannsóknir. Erindi hans hefur án efa gefið þeim innblástur og hvatningu til að efla rannsóknarblaðamennsku hér á landi. Minnistæðast er það sem einn blaðamaðurinn á ráðstefnunni sagði; “walk that extra mile, it pays off.”  Hægt er að lesa meira um þetta stóra fréttamál í bók Stephens Grey, Ghost Plane; The True Story of the CIA Torture Program (2006)  og kynna sér önnur verk hans á vefsíðunni www.stephengrey.com.

 

 


Posted in Fréttir | Tagged , , , , | Leave a comment

Samantekt frá ráðstefnu Miðstöðvarinnar 14. apríl

Eftirfarandi er samantekt Brynjólfs Þórs Guðmundssonar, fréttamanns á RÚV, um fyrirlestra fulltrúa þriggja systursamtaka Miðstöðvar Rannsóknarblaðamennsku á Norðurlöndunum, FUJ, Tutkiva og SKUP, en forystufólk þessara félaga kynnti starfsemi félagana á ráðstefnu Miðstöðvarinnar 14.apríl sl.

 

 

Samstarfsfólk en ekki keppinautar

Fulltrúar frá landssamtökum rannsóknarblaðamanna í Danmörku, Finnlandi og Danmörku gerðu grein fyrir samtökum sínum á Ráðstefnu um rannsóknarblaðamennsku um síðustu helgi. Þar var lýst hvernig samtökin eru byggð upp og hvernig reynt er að efla rannsóknarblaðamennsku í þessum þremur löndum og víða um heim.

Hreyfing en ekki félagasamtök

Jan Gunnar Furuly, formaður SKUP – Stiftelsen for en Kritisk og Undersøkendi Presse í Noregi, reið á vaðið og lýsti uppbyggingu og starfsemi samtakanna sem stofnuð voru 1990 og áttu sér fyrirmynd í bandarísku samtökunum Investigative Reporters and Editors. Furuly lagði áherslu á að um hreyfingu væri að ræða en ekki félagasamtök, þannig væri enginn á félagaskrá. Starfið byggði á því að fólk væri reiðubúið að reiða af hendi sjálfboðastarf í þágu margra. Það sýndi sig til dæmis í að allir verða að borga fyrir sig á ráðstefnum samtakanna, þar á meðal framsögumenn.

Verðlauna aðferðir frekar en áhrif umfjöllunar

Ráðstefnurnar eru haldnar á hverju ári og hafa dregið að sér á sjöunda hundrað þátttakenda. Þar eru framsögur, unnið í málstofum og SKUP-verðlaunin veitt. Við val á því hvaða umfjallanir eru verðlaunaðar er lögð meiri áhersla á þær aðferðir sem hafa verið notaðar við vinnslu umfjöllunar en þau áhrif sem hún hefur haft. Þess vegna verða blaða- og fréttamenn sem eru tilnefndir til verðlaunanna að taka saman rannsóknarskýrslu um hvernig þeir unnu umfjöllun sína og hvaða aðferðir þeir notuðu. Þessar skýrslur eru svo birtar á vef SKUP þar sem áhugasamir geta nálgast þær og notfært sér við eigin störf. Þó hefur borið nokkuð á því að þeir sem fjallað hefur verið um hafi freistað þess að nota skýrslurnar í dómsmálum, hafi þeir verið ósáttir við umfjöllunina um sig. Skýrslurnar eru ítarlegar, jafnvel upp á tugi blaðsíðna. Sú gagnrýni hefur heyrst á verðlaunin í seinni tíð að áherslan á aðferðir og nýjungar sé of mikil og því eigi minni fjölmiðlar litla möguleika á að vinna til verðlaunanna. Furuly sagðist þó telja að þau væru öllum hvatning til að gera betur og reynslan sýndi að blaðamenn á litlum miðlum hefðu hlotið verðlaunin.

Víkka út hóp rannsóknarblaðamanna

Eitt af því sem hefur sett mark sitt á starfi finnsku rannsóknarblaðamennskusamtakanna Tutkiva síðustu ár er að gera þau að breiðari vettvangi blaðamanna en áður var, sagði Minna Knus-Galán, formaður Tutkiva. Þannig hefðu samtökin þróast frá því að vera nokkuð lokaður vettvangur fyrir elítu rannsóknarblaðamanna í að vera nú með 120 til 160 félagsmenn. Hugsunin væri sú að það væri ekki fámennur hópur blaðamanna sem sérhæfði sig í rannsóknarblaðamennsku heldur gætu allir lagt stund á rannsóknarblaðamennsku, hvort sem er einvörðungu eða í einstökum málum.

Samtökin voru stofnuð 1992 og er markmið þeirra að blaðamenn geti skipst á ráðum og bent á aðferðir sem hægt sé að notast við, sagði Knus-Galán. Árið 2010 var fyrsta alþjóðlega ráðstefna samtakanna haldinn og var önnur slík ráðstefna haldin í mars. Þar var meðal annars boðið upp á námskeið um gagnarannsóknir en Knus-Galán sagði í fyrirlestri sínum að fyrstu slíku verkefnin í finnskum fjölmiðlum væru nú að hefjast. Tutkiva veitir Snjóskófluverðlaunin fyrir bestu rannsóknarblaðamennskuna (Svíar veita gullnu skófluna).

Í lok fyrirlestur síns lagði Knus-Galán áherslu á að rannsóknir blaðamanna stöðvuðust ekki við landamærin heldur gengju þvert á landamæri. Þess vegna þyrfti rannsóknarblaðamenn að byggja upp sambönd við rannsóknarblaðamenn í öðrum löndum.

Tengslamyndun og stuðningur

Dönsku samtökin Foreningen for Undersøgende Journalistik – FUJ eru elst norrænu rannsóknarblaðamennskusamtakanna, stofnuð árið 1989, og eru félagsmenn um 350 talsins. Þau ná yfir rannsóknarblaðamennsku í öllum miðlum og er markmiðið að efla rannsóknarblaðamennsku hvort tveggja í Danmörku og erlendis.

Morten Hansen, varaformaður FUJ, sagði að á ári hverju standi samtökin fyrir sex til átta fundum sem ætlaðir eru til að hjálpa félagsmönnum að byggja upp sambönd og skiptast á hugmyndum auk þess sem þar eru haldnar framsögur. Að auki er staðið fyrir fjórum til sex tveggja klukkustunda löngum vinnustofum þar sem kennd eru ákveðin atriði, til dæmis hvernig lesa á úr ársreikningum og hvernig megi nota Google Maps við verkefni. Að auki er haldin rannsóknarblaðamennskuráðstefna en á þeim vef má nálgast upptökur af framsögum á ensku.

FUJ verðlaunin eru veitt árlega og skiptast á milli sex miðla; útvarps, sjónvarps/kvikmynda, dagblaða, bóka, tímarita og netsins. Verðlaunin eru ekki veitt nema fram komi verkefni sem þykja standa fyllilega undir því að vera verðlaunuð. Þyki engin umfjöllun nógu góð í einhverjum flokki eru verðlaunin ekki veitt í þeim flokki það árið.

Styrkja rannsóknarblaðamennsku erlendis

Stuðningur við rannsóknarblaðamennsku erlendis er veittur í gegnum nokkra sjóði. Þannig styrkir Scoop rannsóknarblaðamennsku í austanverðri Evrópu, PAIR í Afríku og ARIJ í arabískum löndum. Stuðningurinn getur falist í fjármögnun, samstarfi og fræðslu. Einnig greiðir Scoop fyrir yfirlestur lögmanns á umfjöllun áður en hún er birt til að tryggja að umfjöllunin brjóti ekki í bága við lög.

Hansen sagði frá hugmyndum um að koma upp ProNordika, stofnun sem hefði svipuðu hlutverki að gegna á Norðurlöndum og ProPublica í Bandaríkjunum. Vonin væri að geta stofnað það sjóð sem styrkti rannsóknarblaðamennsku á Norðurlöndum, og sennilega yrði skilyrði að rannsóknirnar tækju til nokkurra norrænna ríkja. Öll aðildarríki myndu eiga fulltrúa í stjórn.

Nauðsyn að vinna saman

Í pallborðsumræðum að loknum framsögum þremenninganna lögðu Knus-Galán og Furuly áherslu á samstarf rannsóknarblaðamanna. „Við erum ekki keppinautar heldur samstarfsmenn,“ sagði Knus-Galán. Furuly sagði að það væri auðvelt fyrir rannsóknarblaðamenn að hafa samband við kollega sína sem þeir hefðu hitt á ráðstefnum og biðja þá um aðstoð eða ráðgjöf.

Posted in Fréttir | Tagged , , , , | Leave a comment

Umfjöllun um ráðstefnuna

Við erum vægast sagt þakklát fyrir þann góða róm sem gerður var að fyrstu ráðstefnu Miðstöðvar rannsóknarblaðamennsku sem haldin var 14.apríl sl. Sigurður Már Jónsson, varaformaður Blaðamannafélags Íslands, fjallaði um ráðstefnuna og þá grein má lesa hér. Þá gerði Karen Kjartansdóttir fréttamaður á Stöð 2 frétt um ráðstefnuna og tók viðtal við Miröndu Patrucic.

Hjálmar Gíslason framkvæmdastjóri Datamarket og einn fyrirlesara ráðstefnunnar vildi koma bókinni Data Journalism Handbook á framfæri en það er handbók sem ætti að nýtast öllum þeim sem hafa áhuga á að kynna sér gagnablaðamennsku nánar.

Ráðstefnan var öll mynduð og munu upptökur verða settar á vefsíðuna á næstu dögum og vikum. Meðfylgjandi eru myndir sem Ingi Ragnar Ingason tók á ráðstefnunni en fleiri myndir er að finna á síðunni okkar á Facebook.

 

Posted in Fréttir | Leave a comment

2012 ICIJ Conference

Dear colleagues
Thank you all for participating in our first conference. I hope you share our feeling that it went well and was beneficial for all who took part. On top of the inspirational and educational value it was simply a great get-together. We are already planning next years conference and your comments and criticism would be valuable.
The excellent panels where a good and balanced blend of stories and methods. It was of great interest to learn about tools that can make all the difference in the act of digging out the truth.
When you launch a new ship down the slipway you are never really sure whether it will sink or float. This time it certainly floated, thanks to your participation and input.
Kristinn Hrafnsson

Posted in Fréttir | Tagged , , | Leave a comment